Þing Filippseyja hefur lýst Ferdinand Marcos réttkjörinn forseta landsins, í kjölfar yfirburðasigurs hans í kosningunum sem haldnar voru 9. maí.
Marcos, sem tekur formlega við embætti í næsta mánuði, hlaut rúmlega 31,6 milljónir atkvæða, eða 58,8% af greiddum atkvæðum, samkvæmt lokaniðurstöðum kosninganna sem þingið hefur gefið út.
Er hann fyrsti forsetinn til að hljóta hreinan meirihluta atkvæða frá því einræðisherrann faðir hans gerði það á sjöunda áratugnum.
Marcos eldri hélt um valdataumana í rúm tuttugu ár, eða frá 1965 til ársins 1986, þegar honum var steypt af stóli í byltingu.
Mikið púður var lagt í að hvítþvo sögu fjölskyldunnar í kosningabaráttunni nú í ár. Bandalög við önnur sterk pólitísk ættarveldi auðvelduðu Marcos yngri einnig að ná til kjósenda á svæðum þeirra velda.
Meginandstæðingurinn Leni Robredo fékk helmingi færri atkvæði, en rúmlega 15 milljónir kjósenda hökuðu við nafn hennar á kjörseðlinum.
Sara Duterte, dóttir fráfarandi forsetans Rodrigo Duterte, var varaforsetaefni Marcos og mun einnig taka við embætti sínu í næsta mánuði.