Takmarka ensku í Quebec

Quebec í Kanada.
Quebec í Kanada. AFP

Ríkisstjórn Quebec hefur samþykkt frumvarp sem veitir frönsku tungunni víðtæka vernd og takmarkar þá ensku. Gagnrýnendur hafa varað við því að frumvarpið muni endurmóta líf almennings, að því er kemur fram í frétt Guardian.

Frumvarp 96 krefst þess að nýir innflytjendur og flóttamenn eigi eingöngu samskipti við embættismenn héraðsins á frönsku sex mánuðum eftir komu þeirra, annars geti þeir orðið af þjónustu.

Þá takmarkar frumvarpið einnig notkun ensku í réttarkerfinu og setur þak á fjölda þeirra sem mega innrita sig í enskumælandi skóla héraðsins.

Tilraun til að styrkja opinbera tungumálið

Héraðsstjóri Quebec, François Legault, fagnar því að frumvarpið hafi náð fram að ganga og sagði það tilraun til að styrkja vernd opinbers tungumáls Quebec.

Hann vísaði einnig á bug ótta um að lögin myndu grafa undan réttindum þess minnihluta sem talar annað tungumál en frönsku og sagðist ekki vita um að slíkir hópar fengju nokkurs staðar betri þjónustu á eigin tungu en í Quebec.

Þúsundir mótmælt frumvarpinu

Þúsundir hafa mótmælt frumvarpinu á síðustu vikum og óttast margir að margs konar opinber þjónusta verði skert.

„Frumvarp 96 er stærsta brot á mannréttindum í sögu Quebec og Kanada,“ sagði Marlene Jennings, yfirmaður hjá Quebec Community Groups Network, sem stuðlar að rétti enskumælandi í héraðinu.

„Þessi löggjöf afturkallar réttinn til að fá aðgang að þjónustu á ensku fyrir um 300.000 til 500.000 enskumælandi Quebec-búa,“ sagði hún.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Quebec kemst í fréttirnar fyrir að reyna að vernda frönskuna. Árið 2019 var franskri konu neitað um varanlegt dvalareyfi í héraðinu sökum þess að hún gæti ekki sannað að hún talaði frönsku. Doktorsritgerð hennar var nefnilega á ensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert