Báðu Pútín að láta af árásum

Leiðtogarnir báðu Pútín að draga hersveitir sínar strax frá Úkraínu. …
Leiðtogarnir báðu Pútín að draga hersveitir sínar strax frá Úkraínu. Pútín vill að Vesturlönd aflétti efnahagsþvingunum og varar við vopnaflutningi. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Olaf Scholz kanslari Þýskalands ræddu við Pútín Rússlandsforseta símleiðis í dag.

Í símtalinu, sem tók 80 mínútur, hvöttu þeir Pútín til þess að ganga til friðarviðræðna við Volodimír Selenskí forseta Úkraínu. Fréttastofa BBC hefur þetta eftir skrifstofu þýska kanslarans.

Pútín sagði rússnesk stjórnvöld opin fyrir áframhaldandi samtali við úkraínsk stjórnvöld, að því er rússnesk stjórnvöld greina frá. Ekki var þar minnst á mögulegar viðræður Pútíns og Selenskís. 

Hvöttu Pútín til að sleppa Azovstal-hermönnunum

Selenskí hefur ekki sagst vera ákaflega spenntur fyrir samtali við Pútín en segir að slíkt sé nauðsynlegt til þess að binda enda á átökin. Fulltrúar rússneskra og úkraínskra stjórnvalda hafa rætt saman oft og mörgum sinnum síðan innrásin hófst í febrúar en lítið hefur orðið úr þeim viðræðum. 

Þá hvöttu Macron og Scholz Pútín til að sleppa 2.500 úkraínskum hermönnum úr haldi í stálverksmiðjunni Azovstal í Maíupol. Verksmiðjan var eini staðurinn sem Úkraínumenn höfðu enn vald yfir í hafnarborginni, sem staðsett er í suðurhluta landsins. Lítið er eftir af borginni sem hefur þurft að þola linnulausar loftárásir.

Pútín varaði við vopnaflutningi milli ríkja

Macron og Scholz báðu Pútín að opna á ný höfnina í Ódessu svo hægt verði að flytja út varning þaðan. Rússnesk stjórnvöld sögðust myndu skoða málið, til þess að stemma stigu við matarskort sem gæti orðið í öllum heiminum vegna þessa. Í staðinn krafðist hann þess að Vesturlönd myndu aflétta efnahagsþvingunum sínum. Þá varaði Pútín við vopnaflutningi Vesturlanda til Úkraínu og sagði slíkt stuðla að spennu milli ríkjanna. 

Fyrr í mánuðinum greindu rússnesk stjórnvöld frá því að fjöldi úkraínskra hermanna hefði gefist upp en Selenskí sagði að þeim hefði verið sleppt. Hafa Rússar greint frá því að yfir 900 þeirra hermanna hafi verið fluttir í þorpið Olenívka í Dónetsk, sem er hernumin af Rússum. Færri hafi verið fluttir á spítala í Novóasóvsk í Dónetsk. Úkraínumenn binda vonir um að þeim verði sleppt en Rússland hefur ekki staðfest að slíkt verði gert og vilja sumir rússneskir þingmenn að hermennirnir verði dregnir fyrir dómstóla eða þeir jafnvel teknir af lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert