Harris kallar eftir banni við árásarvopnum

Kamala Harris tók til máls í jarðarför Ruth Withfield.
Kamala Harris tók til máls í jarðarför Ruth Withfield. AFP/Geoff Robins

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að almenningi verði bannað að eiga árásarvopn eftir tvær mannskæðar skotárásir í Bandaríkjunum á síðustu vikum. BBC greinir frá.

Harris var viðstödd jarðarför hinnar 86 ára gömlu Ruth Withfield sem lést í skotárás í stórmarkaði í Buffaló í New York þann 14. maí síðastliðinn, en tíu dögum síðar skaut árásarmaður nítján börn og tvo kennara til bana í grunnskóla í Uvalde í Texas.

Harris sagði að nóg væri komið af byssuofbeldi og tími væri til kominn að segja stopp.

„Við hljótum að vera öll sammála um að svona á ekki að eiga sér stað í okkar landi og við eigum að hafa kjark til að gera eitthvað í því,“ sagði Harris þegar hún tók til máls við jarðarför Withfield.

Hún bætti við að lausnin væri einföld og fæli meðal annars í sér bakgrunnsathuganir og bann við árásarvopnum.

„Vitið þið hvað árásarvopn eru?“ spurði hún og hélt áfram: „Þau voru hönnuð í einum tilgangi: til að drepa margt fólk á skömmum tíma. Árásarvopn eru stríðsvopn og eiga ekki heima úti í samfélaginu.“

Fórnarlamba skotárásarinnar þann 14. maí var minnst.
Fórnarlamba skotárásarinnar þann 14. maí var minnst. AFP/Geoff Robins

Komst í kast við lögin skömmu fyrir árásina

Árasármaðurinn í Uvalde var með tvo hálfsjálfvirka riffla og annan þeirra keypti hann skömmu eftir afmælið sitt. Eftir að lögregla skaut hann til bana fundust tæplega 1.700 skotfæri heima hjá honum.

Byssumaðurinn í Buffaló hafði skömmu fyrir árásina komist í kast við lögin en þrátt fyrir það gat hann óhindrað gengið inn í verslum og keypt sér hálfsjálfvirkan riffil.

„Af hverju ætti hver sem er að geta keypt vopn sem getur drepið annað fólk án þess að gengið sé úr skugga um hvort viðkomandi hafi framið ofbeldisglæp? Eða hvort viðkomandi sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Það er eðlilegt að gera það.“

Skiptar skoðanir eru hins vegar á því bæði meðal almenning og í bandaríska þinginu hvort slíkar bakgrunnsathuganir eiga rétt á sér. Þá hafa hugmyndir um bann við árásarvopnum ekki hlotið brautargengi. Nánast allir demókratar styðja hertari löggjöf í þessum efnum en aðeins um 24 prósent rebúblikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert