Joe Biden Bandaríkjaforseti hét því á mánudag að kallað yrði eftir harðari og „skynsamlegri“ löggjöf um skotvopn, í kjölfar skotárásarinnar í Robb-grunnskólanum í Uvalde í Texas í síðustu viku.
„Ég hef verið nokkuð fullur metnaðar frá upphafi,“ fyrir því að herða skotvopnalöggjöf sagði Biden við blaðamenn í Hvíta húsinu fyrr í dag. „Ég mun halda áfram að ýta eftir því,“ bætti forsetinn við.
„Ég held að hlutirnir séu orðnir það slæmir að allir vilji fara skynsamlegri leið með þetta. Ég vona það,“ sagði Biden.
Biden heimsótti Uvalde á sunnudag, en nítján nemendur og tveir kennarar létust þar í skotárás um miðja síðustu viku. Árásarmaðurinn, sem var átján ára, var skotinn til bana af lögreglu. Árásin í Uvalde var mannskæðasta skólaskotárásin í Bandaríkjunum frá árinu 2012 þegar tuttugu nemendur og sex kennarar létust í Sandy Hook-grunnskólanum í Connecticut.
Árásin í Uvalde átti sér stað um tveimur vikum eftir að tíu létust í skotárás hvíts hægri-öfgasinna við matvöruverslun í Buffalo í New York.
Ekki ríkir samstaða um harðari skotvopnalöggjöf á meðal bandarískra öldungadeildarþingmanna og tilraunir til að fá samþykktar hertari reglur hafa ítrekað ekki náð fram að ganga. Árásin í Uvalde hefur þó leitt til aukins meðbyrs fyrir hertari lögum og áberandi öldungadeildarþingmenn voru hóflega bjartsýnir þegar þeir ræddu við blaðamenn í Washington-umdæmi á sunnudag.
„Það eru fleiri þingmenn repúblikana áhugasamir um að finna leið áfram núna en ég hef orðið var við síðan Sandy Hook,“ sagði m.a. demókratinn Chris Murphy, öldungadeildarþingmaður Connecticut.