Rússneski orkurisinn Gazprom hefur lokað fyrir flutning á gasi til Hollands, eftir að hollenska orkufyrirtækið GasTerra neitaði að borga í rúblum eftir innrás Rússa í Úkraínu.
„Gazprom hefur stöðvað algjörlega flutning á gasi til GasTerra vegna þess að það hefur ekki greitt í rúblum,“ sagði í yfirlýsingu frá Gazprom.
Ekki er langt síðan Gazprom lokaði fyrir flutning á gasi til Finnlands.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa krafist þess að viðskiptavinir frá „óvinveittum löndum“, þar á meðal ríki ESB, greiði fyrir gas í rúblum. Með þessu vilja þau komast fram hjá refsiaðgerðum Vesturlanda gegn rússneska seðlabankanum vegna stríðsins í Úkraínu.
Gazprom sagði að í gær hefðu engar greiðslur borist vegna gasbirgða frá Hollandi fyrir aprílmánuð, þrátt fyrir að hafa látið GasTerra vita af því að þörf væri á greiðslu í rúblum fyrir gas sem hefur borist til Hollands frá 1. apríl.