Yfirvöld hafa létt á sóttvarnaráðstöfunum í kínversku stórborginni Sjanghæ eftir tveggja mánaða útgöngubann vegna útbreiðslu Covid-19.
„Þetta er dagur sem okkur hefur dreymt um í mjög langan tíma,“ segir Yin Xin, talskona yfirvalda í Sjanghæ, við fréttamenn BBC.
Chen Ying, sérfræðingur í rafrænum viðskiptum, ætlaði að vinna að heiman eftir að dregið var úr takmörkunum en sagði við fréttastofu AFP að hún myndi fara í langþráðan göngutúr með tveggja ára son sinn.
„Við hefðum átt að vera frjáls til að byrja með, svo ekki búast við að ég sé innilega þakklát núna þegar þau hafa gefið okkur [frelsið] aftur,“ sagði hún.
Almenningssamgöngur munu ganga á ný á miðvikudag og verslanir verða opnaðar. Líkamsræktarstöðvar, kvikmyndahús og söfn verða áfram lokuð. Flest börn munu ekki fá að sækja skóla.
Settar hafa verið nýjar reglur í borginni en nú verða allir íbúar sem hyggjast yfirgefa heimili sín að sýna grænan heilsukóða á snjallsímum sínum. Þeir verða einnig að sýna neikvætt PCR-próf til að ferðast um borgina með almenningssamgöngum, fara í banka, verslunarmiðstöðvar og fleira. Þá eru takmarkanir á því að yfirgefa Sjanghæ áfram í gildi en allir íbúar sem ferðast til annarra borga standa frammi fyrir sóttkví í 7 til 14 daga við komu.