Rússneski olíu- og gasrisinn Gazprom Export mun loka fyrir gasflutning til Danmerkur á morgun, 1. júní, þar sem að danska orkufyrirtækið Orsted hefur neitað að borga fyrir reikninga sína í rúblum, rússneska gjaldmiðlinum.
Samkvæmt upplýsingum frá Orsted hefur Gazprom tilkynnt að lokað verði fyrir afhendingu gass klukkan 6:00 að morgni til.
Rússar hafa þegar lokað fyrir flutning gass til Póllands og Búlgaríu. Þá hefur flutningur til Finnlands verið skertur.
Danska fyrirtækið var viðbúið þessari ákvörðun og hafði því gripið til varúðarráðstafana og fyllt á geymslubirgðir í bæði Danmörku og Þýskalandi til að geta tryggt gas til viðskiptavina sinna í einhvern tíma.
Í yfirlýsingu Orsted í dag kemur fram að engin gasleiðsla liggi beint frá Rússlandi til Danmerkur og því geti Rússar ekki lokað beint fyrir gasið.
„Aftur á móti þá þýðir þetta að gasið sem kemur til Danmerkur verður að miklu leyti að vera keypt á evrópskum gasmarkaði,“ segir í yfirlýsingunni.
Gerir fyrirtækið ráð fyrir að það sé mögulegt.