Lögreglan stöðvaði víðtækt símasvindl

Farsímavírusinn dreifðist eins og eldur í sinu. Ljósmyndin tengist fréttinni …
Farsímavírusinn dreifðist eins og eldur í sinu. Ljósmyndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Farsímasvindl sem kallaðist FluBot hefur verið stöðvað eftir að lögreglan í ellefu löndum tók höndum saman.

Að sögn löggæslustofnunar ESB, Europol, snerist svindlið um vírus sem dreifðist „eins og eldur í sinu“ í gegnum textaskilaboð.

Tölvuhakkarar stálu banka- og öðrum öryggisupplýsingum úr sýktum símum með stýrikerfinu Android með hjálp vírussins. Textaskilaboð voru í framhaldinu send úr símunum í þau símanúmer sem voru skráð þar inn. Þannig dreifðist vírusinn eins mikið og raun ber vitni.

Höfuðstöðvar Europol.
Höfuðstöðvar Europol. AFP

Hollenska lögreglan stöðvaði í síðasta mánuði innviði vírussins eftir rannsókn 11 landa, þar á meðal Bandaríkjanna, Ástralíu og þó nokkurra Evrópuríkja, að sögn Europol.

Stofnunin bætti við að FluBot-svindlið væri einn þeirra farsímavírusa sem hafi dreifst hvað hraðast til þessa.

Lögreglan er enn að reyna að finna út hverjir stóðu á bak við svindlið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert