„Dolly er sextán ára gömul og við búum um það bil einum og hálfum kílómetra héðan í burtu. Það er of mikil mannmergð hér í dag fyrir Dolly þannig að hún fær konunglega meðferð og fær sinn eigin konunglega vagn,“ segir Andrew Elliot sem dróg hundinn sinn í vagni um miðborg Lundúna í dag.
Blaðamaður mbl.is spjallaði við gesti í rjómablíðu í London í tilefni af krúnuafmæli Elísabetar II Bretlandsdrottningar, sem hefur verið drottning í 70 ár, lengst allra þjóðhöfðingja í Bretlandi frá upphafi.
„Við elskum drottninguna, hún er yndisleg. Hún er tákngervingur hollustu og skyldurækni og stendur fyrir allt það besta við Bretland,“ segir Andrew á meðan Dolly sníkir klapp.
„Þetta mun aldrei gerast aftur á okkar lífstíð. 70 ára valdatíð, elsti handhafi krúnunnar og lengsta valdatíðin. Og sólin skín á okkur því hennar hátign á það skilið.“
„Við erum svo stolt af öllu sem hún hefur áorkað. Miklir fjármunir koma inn í landið vegna hennar. Við erum svo stolt af hennar langa valdaferli og við erum í raun í hér til þess að segja takk,“ segir Kimberley Willet sem kom með lestinni frá Middlesbrough í norðaustur Englandi í gærkvöldi til þess að fagna afmæli drottningarinnar.
Kimberley segist vera mikill aðdáandi Elísabetar II.
„Ég vona að konungsdæmið haldi sínum velli í framtíðinni en ég held að þetta sé síðasta tækifærið sem við höfum til þess að sjá drottninguna.“
„Við erum í London í þrjár nætur og fjóra daga og þetta er eitt af því sem við ætlum að gera á meðan við erum hér, að fylgjast með hátíðarhöldunum,“ segir Hollie Kok sem kom með foreldrum sínum og systkinum frá Hong Kong fyrir afmæli drottningarinnar.
„Okkur langar að flytja til Englands en í dag erum við í fríi hér,“ segir Hollie.
Ertu aðdáandi drottningarinnar?
„Ég veit það ekki, kannski,“ segir Hollie og hlær.
Elísabet II er ekki bara elsti lifandi konunglegi þjóðhöfðingi sjálfstæðs ríkis og með lengstu valdatíðina, heldur hafa einungis tveir setið lengur en hún í sögulegu samhengi.
Eftir tíu daga verður hún sú sem hefur setið næst lengst, og tekur þá fram úr Bhumibol Adulyadej sem var konungur Tælands í 25.694 daga. Aðeins Lúðvík XIV, konungur Frakklands til ársins 1715 hefur setið lengur, eða 72 ár og 110 daga.