Að sögn lögreglu beindist árás byssumannsins, sem varð fjórum að bana á sjúkrahúsi í Oklohoma-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöldi, að skurðlækninum sem gerði nýverið bakaðgerð á honum.
BBC greinir frá.
Skurðlæknirinn, Dr. Preston Phillips, lést í árásinni ásamt Dr. Stephanie Husen, Amöndu Glenn og William Love, að því lögreglan greindi frá á blaðamannafundi.
Árásarmaðurinn hafði keypt riffil af gerðinni AR-15 aðeins nokkrum klukkustundum fyrir árásina og var hann einnig vopnaðar skammbyssu, að sögn lögreglu.
Lögreglustjórinn í Tulsa, Wendell Franklin, sagði að árásarmaðurinn „hefði sakað Dr. Phillips um viðvarandi sársauka,“ í kjölfar aðgerðarinnar sem var framkvæmd á Saint Francis sjúkrahúsinu 19. maí.
„Eftir að honum var sleppt af sjúkrahúsi hringdi hann nokkrum sinnum og kvartaði undan sársauka og vildi fá frekari meðferð,“ sagði Franklin. Óljóst er hvort hann hafi fengið frekari aðstoð.
Hann bætti við að bréf, sem fannst á vettvangi glæpsins, hefði gert það ljóst að hinn grunaði „kom inn með það í huga að drepa Dr. Phillips og alla sem urðu á vegi hans“.
„Þetta bréf sagði okkur alla söguna. Þetta var skipulagt,“ sagði Franklin.
Það tók lögregluna þrjár mínútur að koma á staðinn eftir að lögreglunni barst tilkynning um árásina. Segir lögreglan að það hafi tryggt að fleiri hafi ekki látist.
Viðbrögð lögreglu við virkum skotárásum eru undir auknu eftirliti eftir að lögreglan í Uvalde í Texas beið í 40 mínútur áður en hún fór inn í skólann til að takast á við byssumanninn sem skaut 21 til bana, þar af 19 börn.