Ísraelskir hermenn hafa skotið til bana fjóra Palestínumenn á Vesturbakkanum á síðustu tveimur dögum samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Palestínu.
Einn þeirra látnu er hinn 17 ára gamli Odeh Odeh, sem var skotinn í bringuna í grennd við þorpið Al-Madiya. Nokkrum klukkustundum fyrr hafði palestínskur maður verið drepinn í átökum við ísraelska hermenn sem voru að framkvæma handtökuaðgerðir í Dheisheh flóttamannabúðunum nálægt Betlehem.
Samkvæmt ísraelska hernum höfðu hermenn komið inn í flótamannabúðirnar til að handtaka Palestínumann sem var grunaður um hryðjuverkaárás. Þeir mættu aftur á móti mikilli mótstöðu. Fengu þeir meðal annars steypublokkir í fangið og var bensínsprengjum kastað í átt til þeirra. Þeir brugðust við með því að skjóta.
Í gær var kona skotin sem var sögð hafa nálgast hermann með hníf. Síðar sama dag lést maður í árás Ísraelshers á norðurhluta Vesturbakkans.
Ísraelskar öryggissveitir hafa aukið aðgerðir sínar á Vesturbakkanum umtalsvert undanfarna mánuði og gert nánast daglegar innrásir til að handtaka Palestínumenn sem eru sagðir grunaðir um mannskæðar árásir í Ísrael.