Kína mótmælir sambandi Bandaríkjanna og Taívan

Lindsey Hraham, þingmaður öldungadeildar Bandaríkjanna, fær hér gjöf frá Tsai …
Lindsey Hraham, þingmaður öldungadeildar Bandaríkjanna, fær hér gjöf frá Tsai Ing-wen forseta Taívan. AFP

Kínversk yfirvöld setja sig harðlega upp á móti hvers kyns viðskiptasambandi milli Bandaríkjanna og Taívan. 

Yfirlýsing þess efnis var gefin út í dag, í kjölfar þess að Bandaríkin og Taívan tilkynntu að þau hyggðust styrkja sitt efnahagslega samband. 

Kínversk stjórnvöld halda því fram að Taívan sé á þeirra yfirráðasvæði og hafa hingað til staðið því í vegi að Taívan taki þátt í alþjóðasamfélaginu sem fullvalda ríki. 

„Kína mun ávallt setja sig upp á móti hvers kyns opinberum samskiptum kínverska héraðsins Taívan við önnur ríki. Þar á meðal undirbúning og undirritun opinberra efnahags- og viðskiptasamninga,“ segir Gao Feng, talsmaður viðskiptaráðuneytis Kína.

Taívan framleiðir hálfleiðara

Fyrsti fundur samningaviðræðna milli Bandaríkjanna og Taívan er áætlaður seinna í júní. Þá verður farið yfir tolla á landamærum, regluverk í kringum landbúnað og réttindi verkamanna. 

Taívan er í dag tíunda stærsta útflutningsríki Bandaríkjanna en jafnframt einn stærsti framleiðandi hálfleiðara, sem notaðir eru í svokallaðar örflögur (e. microchip), sem notaðar eru við framleiðslu raftækja, allt frá farsímum yfir í bíla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert