Svívirðilegasti glæpur Rússa í stríðinu er að nema á brott Úkraínumenn og flytja til Rússlands, þar á meðal 200 þúsund börn, að sögn Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu.
„Tilgangur þessa er ekki bara að stela fólki, heldur að láta þá brottnumdu gleyma Úkraínu svo þeir geti ekki snúið til baka.“
Selenskí hélt ávarp í gegnum fjarfundabúnað í gær sem var sérstaklega tileinkaður degi barna, þann 1. júní.
Hann rakti það að á síðustu 98 dögum átakanna hafi 446 börn særst, 243 börn látið lífið og 139 börn týnst.
„Sagt er að meðvitundin ráði ekki við stórar tölur. Eftir því sem talan er hærri reynist það einstaklingum erfiðara að átta sig á því hvað stendur að baki. Eyðilagðar fjölskyldur. Litlir persónuleikar sem fengu ekki einu sinni tækifæri til þess að sjá hvað lífið hefði upp á að bjóða.“
Selenskí rakti í kjölfarið sögur tíu barna sem látið hafa lífið í stríðinu.
Um tólf milljónir Úkraínumanna hafa nauðbeygðir flúið landið vegna átakanna og Selenskí lýsti því yfir að allt yrði lagt í sölurnar til þess að tryggja að þeim yrði fært að snúa aftur heim til Úkraínu.