Starfsmenn Rauða krossins drepnir í Malí

Malí. Mynd úr safni.
Malí. Mynd úr safni. KENZO TRIBOUILLARD

Tveir starfsmenn hollenska Rauða krossins voru drepnir á miðvikudag eftir að ráðist var á bifreið þeirra í Kayes-héraði í afríska ríkinu Malí.

Sögðu sjónarvottar að vopnaðir menn á mótorhjólum hefðu skotið á bifreiðina. Tveir aðrir starfsmenn voru einnig í bifreiðinni.

Nouhoum Maiga, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Malí, sagði við fréttamenn AFP að árásarmennirnir væru líklega ræningjar frekar en jihadistar. Tóku þeir bæði bifreiðina og allan búnað, en yfirgáfu síðar bifreiðina.

„Rauði krossinn í Malí fordæmir í hörðustu orðum þetta atvik, sem grefur undan mannúðarverkefnum til viðkvæmra íbúa,“ segir í yfirlýsingu Rauða krossins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert