John Hinckley, sem reyndi árið 1981 að ráða Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseta, af dögum, verður látinn laus án skilyrða síðar í mánuðinum.
Sex ár eru liðin síðan hann var látinn laus af geðdeild.
Dómstóll í Washington úrskurðaði að eftir áratuga meðferð og mat geðlækna stafaði almenningi ekki lengur ógn af honum og verður hann því frjáls ferða sinna frá og með 15. júní.
Hinckley, sem er 67 ára, skaut Reagan og þrjá aðra með skammbyssu fyrir utan hótel í Washington 30. mars 1981. Hann sagðist hafa viljað ganga í augun á leikkonunni Jodie Foster, sem hann var haldinn þráhyggju gagnvart eftir að hafa horft á kvikmyndina Taxi Driver.
Allir fjórir komust lífs af en blaðafulltrúi Reagans, James Brady, lamaðist og þurfti að notast við hjólastól eftir árásina.
Í réttarhöldum árið 1982 var Hinckley dæmdur saklaus vegna andlegra veikinda og fluttur á geðsjúkrahúsið St. Elizabeths Hospital í Washington. Þar dvaldi hann í 34 ár en var sleppt lausum árið 2016. Honum var gert að búa hjá aldraðri móður sinni gegn ýmsum frekari skilyrðum.