Joe Biden Bandaríkjaforseti vill að árásarvopn verði bönnuð fyrir almenning í landinu til að takast á við „blóðbað“ byssuofbeldis. Sagði hann í ávarpi að ef bann væri ekki mögulegt ætti aldurstakmarkið til að geta keypt slík vopn að minnsta kosti að hækka úr 18 í 21 árs.
„Hvers vegna ætti almennur borgari að geta keypt árásarvopn með 30-lota skothylki, sem leyfir fjöldaskyttum að skjóta hundruðum skota á nokkrum mínútum?,“ bætti hann við.
Til þess að harðari skotvopnalöggjöf nái fram að ganga þurfa repúblikanar í öldungadeildinni að styðja hana, sem er ólíklegt þar sem þeir vernda aðgang að skotvopnum sem stjórnarskrárbundinn rétt allra Bandaríkjamanna, að því er fram kemur í frétt BBC.
Sérfræðingur sagði við fréttamenn að sumir repúblikanar væru persónulega hlynntir strangara byssueftirliti en óttuðust að tapa atkvæðum til frambjóðenda sem styðja aðgengi almennings að skotvopnum.
„Þetta snýst ekki um að taka byssur af neinum. Þetta snýst ekki um að taka réttindi af neinum. Þetta snýst um að vernda börn,“ sagði forsetinn.
Það sem af er ári hafa verið 233 fjöldaskotárásir í Bandaríkjunum. Fjöldaskotárás er skilgreind sem atvik þar sem fjórir eða fleiri eru skotnir eða drepnir, að árásarmanninum undanskildum.