Munu svara ef bandarískar eldflaugar lenda á Rússlandi

Vladimir Pútín heilsar fyrrum kanslara Þýskalands Gerhard Schroeder á meðan …
Vladimir Pútín heilsar fyrrum kanslara Þýskalands Gerhard Schroeder á meðan að Dmitry Medvedev horfir á. AFP

Einn af nánustu stuðningsmönnum Pútín, Dmitry Medvedev, varaði við því í dag að Rússland gæti beint árásum sínum gegn borgum í Vesturlöndum ef Úkraína notar eldflaugar frá bandaríska hernum gegn Rússlandi. Þetta kemur fram í frétt The Times um málið. 

Ríkisstjórn Bandaríkjanna tilkynnti í vikunni að þau myndu senda M142 eldflaugar til Úkraínu sem mun tvöfalda lengdina sem Úkraína getur sent eldflaugar eins og er en hægt er að skjóta eldflaugunum 80 kílómetra. 

„Ef þessi vopn verða notuð á landsvæði Rússlands þá mun her okkar hafa úr engu öðru að velja en að skjóta á þá sem tóku þá ákvörðun,“ sagði Dmitry Mevedev sem var áður forsætisráðherra Rússlands undir stjórn Pútín en er núna varaformaður varnarráðs Rússlands.

Tekur Mevedev þá fram að þegar hann vísar til þeirra sem taka ákvarðanir sé hann ekki að tala um staði innan Úkraínu, heldur að Rússar muni skjóta á Vesturlönd ef að bandarískar eldflaugar lendi á þeirra landsvæði. Að hans mati eru Vesturlönd að nota innrás Rússlands í Úkraínu til að heyja leynilegt stríð gegn Rússlandi. Varar hann við að þetta geti leitt til kjarnorkustríðs. 

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa nú fengið loforð frá forseta Úkraínu Volodimir Selenskí um að eldflaugarnar sem þeir frá Bandaríkjunum verði ekki notaðar á landsvæði Rússlands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert