Þóra Birna Ingvarsdóttir
Fjögur flugskeyti lentu á ríkisverksmiðju, rétt fyrir utan Kænugarð, sem þjónustar lestarkerfið í Úkraínu.
Upplýsingar um það hvar flugskeytin komu niður höfðu verið misvísandi og í rússneskum miðlum var því haldið fram að þær hefðu hæft skriðdrekaverkstæði.
Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði, fór á vettvang, ræddi við fólkið og myndaði rústirnar.
„Mér finnst ólíklegt að Rússar hafi áttað sig á því hvað þeir væru að skjóta á, það er svo órökrétt að sprengja þessa verksmiðju.“
Óskar lýsir því hvernig starfstöðvar verksmiðjunnar þekja risastórt svæði og þar eru hátt í 30 byggingar. Af þeim hæfðu Rússar þrjár.
Hann ræddi við fulltrúa frá alríkislögreglu Úkraínu, sem sagði að eitt svona flugskeyti kosti þrjár milljónir dollara.
„Þarna er svakaleg eyðilegging. Þetta er krúttlegur vinnustaður og flestir vinna þarna alla ævi þarna.“
Fólkið sem starfaði í byggingunum sem urðu flugskeytunum að bráð, missa ekki vinnuna heldur fá að starfa við að endurreisa húsin, að sögn Óskars.