Sprengingar í Kænugarði merki um að Rússar hörfi

Reykur í Kænugarði í morgun eftir árásir Rússa.
Reykur í Kænugarði í morgun eftir árásir Rússa. AFP

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari í Kænugarði, segir sprengingar Rússa í borginni í morgun ekki merki um að þeir undirbúi innrás þangað heldur þvert á móti. Segir Óskar þetta merki um að Rússar séu á afturfótunum. Eldflaugar höfðu ekki lent í höfuðborg Úkraínu fyrir sprengingarnar í morgun í um einn og hálfan mánuð.

Óskar segist hafa fengið staðfest að fjórar eldflaugar hafi sprungið í morgun. Rússar héldu því upprunalega fram að skotmarkið hafi verið viðgerðarstöð fyrir skriðdreka undir nafninu DVRZ. Óskar segir það hins vegar ekki vera rétt og að honum og öðrum blaðamönnum í Úkraínu hafi borist tilkynning frá stjórnvöldum þar í landi um að eldflaugarnar hafi ekki hæft viðgerðarstöðina heldur hafi þær lent á bifreiðaverkstæði. Óskar ætlar að fara þangað seinna í dag og taka ljósmyndir af svæðinu þar sem sprengjurnar lentu.

Merki um vatnaskil í stríðinu

Segir Óskar mikinn mun á þessari árás Rússa á Kænugarð og þeirri síðustu. Þá sendu Rússar eldflaugar í miðja borgina. Að hans mati ber árásin í morgun merki um breytt skipulag og breytta forgangsröðun í stríðinu. „Síðast þegar það var ráðist á Kænugarð þá var það í miðju íbúðahverfi í miðbæ borgarinnar. Núna er þetta hins vegar einungis hernaðarlegt skotmark.“

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari í Úkraínu.
Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari í Úkraínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta sé ekki endilega merki um að Rússar séu að beina sjónum sínum að Kænugarði sérstaklega eða séu að undirbúa innrás þar inn. „Ég held að staðreyndin að það sé sprengt í Kænugarði skipti endilega ekki máli heldur er þetta sé fyrst og fremst hernaðarlegt skotmark,“ segir Óskar.

Hann nefnir að Rússland eigi ekki lengur innviði til að beina eldflaugum að almennum borgurum í því skyni að skelfa þjóðina og þurfi því að velja skotmörkin sín betur núna í hernaðarlegum tilgangi. 

„Rússar eru komnir vel á afturfæturna núna og þeir eiga mjög lítið eftir af þessum eldflaugum með svona nákvæmni. Í byrjun stríðsins þegar þeir áttu nóg sendu þeir eldflaugarnar bara einhvern veginn, inn í borgarbyggð og á almenning en núna eru þeir farnir að senda þær nánast eingöngu á hernaðarleg skotmörk.“

Stúlka að leik í Kænugarði.
Stúlka að leik í Kænugarði. AFP

Snúa vörn í sókn

Að mati Óskars er núverandi barátta Rússlands í Donetsk-héraði vera síðustu framrás rússneska hersins í Úkraínu. Tekur hann þó fram að hann segi þetta með þeim fyrirvara að þetta sé aðeins sín persónulega skoðun. „Miðað við hvað Rússland á mikið eftir af hermönnum og öðrum innviði held ég að eftir þetta fari þeir í algjöra vörn. Þeir eru nú þegar í vörn á öllum öðrum vígstöðum nema í Donetsk.“ 

Segir Óskar að baráttan um Donetsk sé að snúast Úkraínumönnum í vil enda hafi þeir verið mjög snjallir þegar kemur að herkænsku í borginni. Í því samhengi nefnir hann að þeir hafi hörfað til að byrja með til að búa til það sjónarspil að Rússar væru með yfirhöndina í borginni en þegar að Rússar voru komnir inn í miðja borgina höfðu Úkraínumenn snúið vörn í sókn og séu nú búnir að umkringja Rússa í borginni. „Þeir leiddu þá bara í gildru,“ segir Óskar og bætir við að Úkraína sé með yfirhöndina á öllum vígstöðvum.

Frá Kænugarði í morgun.
Frá Kænugarði í morgun. AFP

„Þetta sýnir það að Úkraína er að sýna miklu meiri kænsku á meðan Rússar eru að nota sömu taktík og þeir hafa verið að gera frá byrjun stríðs,“ segir Óskar í lokin. Miðað við hvað Rússar hafi eytt miklu púðri í að reyna ná Donetsk á sitt vald þrátt fyrir að hún skipti litlu máli hernaðarlega séð séu Rússar einungis komnir í varnarstöðu og hafi enga möguleika á að ráðast í neina sókn nokkurs staðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert