„Það þarf meira til að hræða mig“

Vasílí starfaði í verksmiðjunni sem var sprengd í fjölda ára …
Vasílí starfaði í verksmiðjunni sem var sprengd í fjölda ára og bjó þar mjög skammt frá. Ljósmynd/Jón Jóhannesson

Sprengingar urðu í Kænugarði í morgun, en samkvæmt upplýsingum frá herráði Úkraínu var fimm rússneskum stýriflaugum af gerðinni X-22 skotið á borgina frá Kaspíahafi í morgun. Ein stýriflaug var skotin niður af loftvarnarsveitum, en fjórar hittu járnbrautarverksmiðju. Samkvæmt úkraínskum stjórnvöldum voru engin hertól eða hernaðarmannvirki á svæðinu, en rússnesk hermálayfirvöld halda því fram að þar hafi verið skriðdrekar frá Austur-Evrópu. Einn maður særðist í árásinni.

Hermenn gæta nú svæðisins og er engum hleypt nálægt verksmiðjunni. Jón Gauti Jóhannesson, fréttaritari mbl.is í Kænugarði, var á ferð um svæðið eftir árásirnar og tók tal af Alexei, sem var á göngu á svæðinu. „Ég var að drekka kaffi út svölum þegar ég heyrði blístur, sá eldflaug og síðan heyrðist öflug sprenging. Þetta er ferlegt. Ég var að tala við konu mína og dóttur fyrr í dag. Þær grétu í símann. Þær ætluðu að snúa aftur til Kænugarðs frá Póllandi, en hafa nú hætt við.“

Vasílí sat á bekk fyrir framan blokkina sína skammt frá verksmiðjunni. Hann segist hafa vaknað við öfluga sprengingu, fyrst haldið að þetta væri þruma, en síðan heyrðust fleiri sprengingar sem skömmu millibili. Ég spurði hann hvernig honum liði eftir svona árás: „Ég vann í þessari verksmiðju í mörg ár. Ég held að það séu engin hernaðartól þarna. Ég er ekki neinu sjokki. Ég var í fallhlífasveitum sovéska hersins í þrjú ár og það þarf meira til að hræða mig. Það er ólíklegt að þessir djöflar skjóti á íbúðarhúsnæði með svona dýrum flaugum, en þeir geta náttúrlega misst marks.“

Myndbandið sem sjá má hér að neðan sýnir árásirnar í morgun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert