Grunaður um að leiða samtök barnaníðinga

Barnaklám fannst í tölvu mannsins.
Barnaklám fannst í tölvu mannsins. AFP

Lögreglan í Mexíkó hefur handtekið hollenskan ríkisborgara sem er grunaður um að leiða glæpahring er við kemur mansali barna. 

Nelson N, maðurinn sem er sakaður um að hafa leitt glæpahringinn, er einnig grunaður um að vera leiðtogi alþjóðlegra samtaka barnaníðinga sem voru stofnuð árið 1982. 

Handtakan fór fram í kjölfar víðtækrar rannsóknar saksóknara í samstarfi við félagasamtökin Operation Underground Railroad (OUR) sem hafa barist gegn kynferðislegri misnotkun barna og mansali. 

OUR gerðu lögreglunni viðvart um manninn í Mexíkó en samtökin höfðu upplýsingar um að hann væri þar staddur til að stækka starfsemi sína.

Gæta réttinda mannsins

Í rannsókninni hefur verið fylgst með hreyfingum mannsins og starfsemi hans sem hefur miðað að því að komast í samband við aðra mögulega barnaníðinga, að sögn yfirvalda í Mexíkó.

Embætti saksóknara vinnur að rannsókninni en búið er að óska eftir aðstoð ræðismanns til að gæta réttinda Nelson sem útlendings í Mexíkó.

Fundu barnaklám á tölvunni

Í leit á dvalarstað hins grunaða í kjölfar handtökunnar fundust m.a. ljósmyndir með barnaklámi, auk barnakláms í tölvu og á hörðum diskum. Þá fundust einnig tvö hollensk vegabréf.

Samkvæmt upplýsingum rannsóknarinnar hefur maðurinn beitt sér fyrir lögleiðingu barnaníðs á árunum 2014 til 2021.

Maðurinn hefur verið handtekinn nokkrum sinnum áður í Hollandi en hann hefur verið á flótta síðan í febrúar á þessu ári, ef ekki fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka