Þrátt fyrir að innrás Rússlands í Úkraínu standi enn yfir og að hart sé barist á mörgum vígstöðvum hefur verið opnuð sýning um innrásina í höfuðborg Úkraínu Kænugarði.
Í byrjun innrásarinnar náðu Rússar völdum á mörgum svæðum í kringum höfuðborgina en núna hafa þeir neyðst til þess að hörfa og segja skilið við þessa staði og hafa þar að auki þurft að skilja eftir alls konar muni víðs vegar sem almenningur ber núna augum á nýrri sýningu í safni sem var upprunalega tileinkað seinni heimsstyrjöldinni í Kænugarði.
Meðal munanna sem eru til sýnis eru eldflaugar, matarskammtar, hjálmar og fleira sem skilið var eftir á svæði norðan við Kænugarð. Í glerskápum er jafnvel hægt að skoða persónulega muni látinna rússneskra hermanna eins og vegabréf og kreditkort.
Yuriý Savchuk, sýningarstjóri sýningarinnar, segir að þessi sýning sé sett upp til að svara sýningu í Moskvu í Rússlandi sem sýnir ranglega þann fasisma sem að sögn Rússa ríki í Úkraínu og Rússar segjast berjast gegn.