Vantrauststillaga gegn Morgan Johansson, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, var felld með einu atkvæði á sænska þinginu fyrir hádegi. Þetta kemur fram í frétt sænska ríkisútvarpsins, SVT.
Svíþjóðardemókratar báru upp tillöguna í síðustu viku. Þeir segja að Johansson hafi ekki brugðist nægilega vel við auknu ofbeldi skipulagðra gengja.
Svíþjóðardemókratar ásamt Moderaterna og Kristilegum demókrötum studdu tillöguna en flokkarnir eru með 174 sæti á þinginu og þurftu því einungis eitt atkvæði í viðbót til þess að tillagan yrði samþykkt. Svo var ekki raunin en 174 atkvæði voru greidd með tillögunni en 175 sögðu ýmist nei, sátu hjá eða voru fjarverandi.