Örlög Donbas ráðin í Severódónetsk

Mynd tekin í Severódónetsk í gær.
Mynd tekin í Severódónetsk í gær. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir baráttuna um borgina Severódónetsk kunna að ráða úrslitum stríðsins í austurhluta landsins.

BBC greinir frá. 

„Að mörgu leyti eru örlög Donbas ráðin þar,“ sagði forsetinn og bætti við að hermenn hans væru að valda miklu tjóni á óvinasveitum.

Úkraínskum hersveitum hefur þó verið ýtt í átt að útjaðri bæjarins samkvæmt úkraínskum embættismanni á svæðinu.

Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí.
Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí. AFP

Sérsveitarmenn hafa dregið sig til baka

Sergí Gaídaí, héraðsstjóri Lúgansk, sagði sérsveitarmenn hafa dregið sig til baka eftir að Rússar fóru að jafna svæðið með skot- og loftárásum. Severódónetsk er stærsta borgin í  Lúgansk.

„Sveitir okkar stjórna nú aftur aðeins útjaðri borgarinnar,“ sagði hann við fjölmiða á staðnum. „En bardagarnir eru enn í gangi, sveitir okkar eru að verja Severódónetsk.“

„Það er ómögulegt að segja að Rússar stjórni borginni algjörlega,“ bætti hann við.

Úkraínskir hermenn hafa þurft að hörfa vegna loft- og skotárása.
Úkraínskir hermenn hafa þurft að hörfa vegna loft- og skotárása. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert