Saksóknarar í Berlín sækjast nú eftir því að ökumaðurinn sem keyrði á hóp fólks í Berlín í gær verði færður úr gæsluvarðhaldi yfir á geðdeild þar sem hann fær geðþjónustu.
Maðurinn keyrði inn í hóp af fólki í gærmorgun um 11:30 á staðartíma, á horni Rankestrasse og Tauentzienstrasse í vesturhluta Berlínar, með þeim afleiðingum að ein kona lést. Konan var kennari með hóp af ungmennum í skólaferð. Sum ungmennanna urðu einnig fyrir bílnum og slösuðust við það. 32 slösuðust í heildina.
Bílferð mannsins endaði að lokum í búðarglugga á verslunargötunni Tauentzienstrasse.
Maðurinn er 29 ára gamall og að sögn upplýsingafulltrúa saksóknara í Berlín er útlit fyrir að hann þjáist af ofsóknarkenndum geðklofa. Þar að auki nefnir upplýsingafulltrúinn að eiturlyf hafi fundist í íbúð mannsins.
Að sögn upplýsingafulltrúans hafa saksóknarar og lögregla útilokað að verkið hafi verið hryðjuverk en rannsaka nú hvort að það hafi verið framið að völdum andlegra kvilla.
Innviðaráðherra Berlín Iris Spranger sagði í gær ekkert benda til þess að um pólitískt verk væri að ræða heldur var verkið framið af einhverjum sem þjáist af ranghugmyndum og andlegum veikindum.