Hætta á kólerufaraldri í Maríupol

Mikil eyðilegging er í Maríupol.
Mikil eyðilegging er í Maríupol. AFP

Hætta er á kólerufaraldri í úkraínsku borginni Maríupol að sögn breska varnarmálaráðuneytisins. Mikil eyðilegging er í borginni eftir margar vikur af skotárásum Rússa en borgin er nú undir þeirra stjórn.

Stór hluti innviða borgarinnar er skemmdur eða eyðilagður og vatn hefur blandast skólpi að sögn Sameinuðu þjóðanna. Uppsöfnuð lík gera hreinlæti borgarinnar enn verra.

Kólera smitast vanalega þegar neytt er matar eða drykkja sem mengast hefur með saur frá smitandi einstaklingum, samkvæmt upplýsingum á vef landlæknis.

Segir smitsjúkdóma vera í borginni

Úkraínski borgarstjóri borgarinnar, Vadím Botjenkó, sagði BBC að „kólera, blóðsótt og aðrir smitsjúkdómar væru nú þegar í borginni“ og að borginni hefði verið lokað til að forðast stærri faraldur.

BBC segist ekki geta sannreynt fullyrðingar borgarstjórans en rússneski borgarstjórinn sagði að reglulega væri prófað fyrir sjúkdómnum og engin tilfelli kóleru væru skráð.

Heilbrigðisráðuneyti Úkraínu sagðist hafa takmarkaðan aðgang að upplýsingum frá Maríupol en að þau hefðu framkvæmt prófanir á yfirráðasvæði Úkraínu og ekki greint nein tilfelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert