Eldur í efnaverksmiðju eftir skotárás Rússa

Svartur reykur stígur upp frá borginni Severodonetsk.
Svartur reykur stígur upp frá borginni Severodonetsk. AFP/Aris Messinis

Eldur hefur komið upp í efnaverksmiðju í borginni Severodonetsk í austurhluta Úkraínu í kjölfar skotárásar Rússa. Áætlað er að um 800 óbreyttir borgarar hafi leitað skjóls í neðanjarðarsprengjuskýlum undir Asot-verksmiðjunni.

Linnulaus átök hafa verið í borginni síðustu daga en Rússar hafa sölsað undir sig stærsta hluta borgarinnar, og þá aðallega íbúðahverfin. Enn eru svæði í iðnhverfum sem Úkraínumönnum hefur tekist að halda í. BBC greinir frá.

Rússneski herinn hefur undanfarnar vikur beint kröftum sínum að Lúhansk-héraðinu í austurhluta Úkraínu og er borgin talin síðasta vígi Úkraínumanna á því svæði.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur áður sagt að orrustan um héraðið ráðist í Severodonetsk. Hann hefur nú enn á ný farið fram á að alþjóðasamfélagið komi Úkraínumönnum til aðstoðar með vopnasendingu en skotfæri þeirra eru á skornum skammti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert