„Karkív var fremur vinveitt Rússlandi og það átti enginn von á svona illmennsku. Hvað höfum við gert þeim?“ spyr Vladislav, 52 ára íbúi Saltivka, úthverfis borgarinnar Karkív í Úkraínu, þar sem brunnar byggingar og hálfhrundar blasa við hvert sem litið er. Jón Gauti Jóhannesson, fréttaritari Morgunblaðsins, var þar á ferð ásamt Oksönu Jóhannesson ljósmyndara og ræddi við nokkra íbúa, sem hafa haldið kyrru fyrir þrátt fyrir að innrás Rússa hafi gert lífið þar hættulegt, erfitt og gersneytt öllum þægindum.
Í grein Jóns Gauta í Sunnudagsblaðinu um helgina er því lýst hvernig fólk þarf að sækja vatn í brunna og eldivið í nálæga skóga. Í þrjá mánuði hefur fólk í Saltivka verið án vatns í íbúðum, ramagns og gass. Þrátt fyrir umsátur rússneska hersins er enn fólk að finna í Saltivka.
Tetjana er einn viðmælenda Jóns Gauta. Hún er 64 ára og komin á eftirlaun. Hún segist nú geta greint á milli flughersárása, loftvarnarskota, fallbyssna, sprengjuvarpa og eldflaugaskotpalla. Þegar hún er spurð hvaða ráð hún hafi í svona erfiðum aðstæðum svarar hún: „Halda höfðinu köldu og forðast móðursýki. Að er hægt að komast í gegnum allt með allsgáðum huga.“
Ljúbov er 58 ára og vann sem sporvagnastjóri fyrir stríðið. Hún hafðist við í kjallara í tvoog hálfan mánuð og fór ekki ú undir bert loft. „Ég óttaðist sprengjurnar og að grafast undir í kjallaranum, en ég gat mig hvergi hreyft. Ég var í áfalli allan tímann. Kjallarinn nötraði þegar sprengjur féllu nálægt. Ég bað bænir frá morgni til kvölds. Ég vissi ekki hvort það var dagur eða nótt.“ Helsta ánægja hennar er að fóðra köttinn og gefa dúfum brauðmylsnu. „Ég byrjaði fyrst að brosa aftur fyrir þrem dögum,“ segir hún.
Viktor er Rússi og var fyrir 20 árum í rússneska hernum. Að lokinni herþjónustu kvæntist hann konu frá Úkraínu og flutti til Karkív. „Ég var í áfalli, hvernig gat Rússland ráðist á svona lítið friðsamlegt ríki? Er ekki nóg af landsvæði á milli, frá Moskvu til Vladisvostok? Hvernig gat þetta gerst – ég sendi Rússlandi fingurinn, orðum það þannig,“ svarar hann þegar hann er spurður hvernig honum hafi orðið við þegar Rússar réðust inn í Úkraínu.
Frásögn Jóns Gauta er í Sunnudagsblaðinu ásamt myndum Oksönu Jóhannesson.