Hópur tuttugu bandarískra öldungadeildarþingmanna hafa sammælst um að leggja fram drög að frumvarpi um herta byssulöggjöf.
Með frumvarpinu yrðu allir þeir sem eru yngri en 21 árs að gangast undir mat áður en þeir kaupa byssur.
CNN greinir frá því að drögin feli í sér betra aðgengi að „geðheilbrigðisúrræðum, bætt öryggi í skólum og stuðning við nemendur, og hjálpi við að tryggja að hættulegir glæpamenn og þeir sem eigi við geðræn vandamál að stríða geti ekki keypt vopn“.
Hópurinn inniheldur tíu þingmenn Repúblikanaflokksins sem gætu gefið frumvarpinu nægan stuðning til þess að komast í gegnum öldungadeildina.
„Í dag kynnum við heilbrigða skynsemi, drög sem ganga þvert á flokka til að vernda bandarísk börn, halda skólunum okkar öruggum og draga úr hættu á ofbeldi um land allt,“ sagði í yfirlýsingu hópsins.
„Fjölskyldur eru hræddar og það er skylda okkar að koma saman og gera eitthvað til þess að endurheimta öryggistilfinninguna og öryggi í samfélögunum okkar.“
Joe Biden Bandaríkjaforseti kallaði eftir því í byrjun mánaðarins að árásarvopn yrðu bönnuð fyrir almenning í landinu. Frumvarp þingmannanna gengur því ekki alveg eins langt og forsetinn hefði viljað.
„Augljóslega, gerir það ekki allt sem ég tel nauðsynlegt, en það endurspeglar mikilvæg skref í rétta átt og væri mikilvægasta byssulöggjöf sem samþykkt hefur verið á þinginu í áratug,“ sagði Biden í yfirlýsingu.
Drög að frumvarpinu urðu til í kjölfar þess að 21 lést í skotárás í barnaskóla í Uvalde í Texas-ríki og tíu létust í skotárás í matvöruverslun í Buffalo í New York-ríki.