Eiginkona og tengdamóður breska blaðamannsins, Dom Phillips, segja vonir þeirra vera úti um að finna Phillips á lífi en hann og Bruno Pereira hurfu sporlaust í Amazon regnskóginum í Brasilíu fyrir viku.
The Guardian greinir frá þessu en Phillips skrifaði fyrir miðilinn.
Brasilíski herinn, lögregla og innfæddir á svæðinu hafa leitað mannanna tveggja en leitin hefur lítinn árangur borið.
„Þeir eru ekki lengur með okkur,“ skrifaði tengdamóðir Phillips á Instagram.
„Sálir þeirra hafa gengið til liðs við svo marga sem hafa látið lífið til varnar regnskóginum og frumbyggjum þess. Í dag eru þeir hluti af gríðarlega öflugri lífsorku þessa gróðurlendis sem er hjarta Brasilíu.“
Mennirnir tveir hurfu í lok rannsóknarferðar fyrir bók Phillips um sjálfbæra þróun á svæðinu. Þeir höfðu starfað saman lengi og voru að taka viðtöl við innfædda á Vale do Javari svæðinu. Er bátur þeirra kom ekki á tilsettum tíma í bæinn Atalaia do Norte var hvarf þeirra tilkynnt.
Lögreglan hefur handtekið einn mann í tengslum við málið sem hafði hótað Phillips og Pereira daginn áður en þeir hurfu. Leifar af blóði fundust í bát hans.
Phillips hafði skrifað töluvert um ólöglegar veiðar á þessum slóðum en Pereira hefur barist gegn slíku athæfi. Hefur hann í kjölfarið fengið líflátshótanir og því hefur vaknað grunur um að mennirnir hafi verið teknir af lífi eða þeim rænt.