Annað hvort geti hermenn gefist upp eða dáið

Severodonetsk hefur sætt miklum árásum undanfarnar vikur.
Severodonetsk hefur sætt miklum árásum undanfarnar vikur. AFP/Aris Messinis

Úkraínskar hersveitir hafa verið þvingaðar út úr miðbæ borgarinnar Severodonetsk í austurhluta Úkraínu, þar sem bardagar hafa geisað í margar vikur.

„Óvinurinn, með aðstoð stórskotaliðs, hefur ráðist á borgina Severodonetsk með nokkrum árangri. Hann hefur hrakið sveitir okkar út úr miðbænum,“ sagði í færslu úkraínska hersins á Facebook.

Hersveitir aðskilnaðarsinna, sem eru hliðhollir Rússum, hafa sagt borgina vera lokaða og hvatt úkraínska hermenn til að gefast upp.

Borgin „lokuð“

„Severodonetsk hefur í raun verið lokuð eftir að síðasta brúin sem tengdi hana við Lísítsjansk var sprengd í loft upp í gær,“ sagði Eduard Basurin, fulltrúi aðskilnaðarsinnanna við fréttamenn á mánudag.

Sagði hann hermenn hafa tvo kosti: „Að gefast upp eða deyja.“

Þá sagði hann að hersveitir aðskilnaðarsinna herjuðu á borgina Slovyansk úr vestri, norðri og austri.

Örlög svæðisins ráðast í borginni

Rússar hafa náð völdum yfir stórum hluta Severodonetsk, þar á meðal íbúðarhverfum, en Úkraínumenn hafa haldið fast í iðnaðarhverfin. Borgin, sem er staðsett í Lúhansk-héraði á Donbas-svæðinu, er sú stærsta á svæðinu sem hefur ekki fallið í hendur Rússa.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur sagt að örlög Donbas-svæðisins muni ráðast í Severodonetsk.

Í gær gerðu Rússar skotárás á efnaverksmiðju í borginni, með þeim afleiðingum að eldur kom upp. Talið er að um 800 íbúar hafi hafist við í sprengjuskýli undir verksmiðjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert