Siglingakeppnin Vendée Arctique hófst í Frakklandi fyrir tveim dögum en til keppni eru skráðar 25 skútur. Þetta verður fyrsta skiptið sem siglt verður norður fyrir Ísland, farið yfir heimskautsbauginn og svo aftur til Frakklands en áætluð vegalengd nemur um 5.630 kílómetrum. Reiknað er með að keppninni ljúki 16.-20. júní.
Hægt er að fylgjast með keppninni hér.
„Það má búast við því að þeir verða hérna um helgina einhverstaðar við landið. Þetta er um tíu daga keppni þannig að þetta er ekkert smá úthald sem fólkið þarf að hafa því það er bara einn maður um borð í hverjum bát sem þarf að keppa stanslaust í tíu sólarhringa,“ segir Úlfar H. Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Siglingasambands Íslands.
Keppt er á skútum í IMOCA flokki. Farkostirnir eru hátæknilegir og flestir bátarnir með eins konar vængi í sjónum. Á siglingunni lyftist skrokkurinn upp úr sjónum og skútan brunar áfram á vængjunum. Bátarnir eru að sögn Úlfars óstjórnlega hraðskreiðir en skúturnar geta náð allt að 80 km hraða á klukkustund þegar best lætur og farið hraðar en vindurinn.
„Þessir bátar eru óstjórnlega hraðskreiðir. Þetta eru sextíu feta bátar sem að eru 18,3 metrar að lengd. Svo mega menn þróa þá innan ákveðna marka, kannski svipað og í formúlu 1, þar sem það eru ákveðnar reglur um hvernig hlutirnir eiga að vera og menn reyna að nýta þær reglur til þess að búa til bát sem er hraðskreiðastur innan þess ramma sem reglurnar setja,“ segir hann.
Úlfar segir að siglingarleiðin sem keppendurnir sigla í ár sé erfið tæknilega séð. „Þeir eru að fara þvert á lægðarkerfin, þannig að hún er taktískt erfið keppnin, erfiðari en annars væri. Það er út af því að lægðirnar koma allar úr vesturáttinni og fara þvert á brautina. Þá verða meiri vindbreytingar og menn verða að velta fyrir sér hvaða leið sé best að fara, því besta leiðin er ekki endilega bein lína heldur getur borgað sig að fara lengri leið,“ segir hann.
Aðspurður segir hann að aðilar hér á landi séu reiðubúnir að koma til hjálpar ef eitthvað fer úrskeiðis. „Við erum bauja og við munum fylgjast með ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis, en þá erum við til taks til að hjálpa. Það er búið að tala við landhelgisgæsluna og það er búið að tala við siglingahópa á ákveðnum stöðum til þess að geta hjálpað til, þannig að við erum innan handa ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis,“ segir hann.