Breska ríkisstjórnin hefur varið ákvörðun sína um að senda hælisleitendur til Rúanda þrátt fyrir mikil mótmæli og gagnrýni Sameinuðu þjóðanna.
Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í viðtali við Sky news að flugið til Kigali, höfuðborgar Rúanda, færi í loftið sama hversu margir væru um borð eftir að flugmiðar 23 af þeim 31 hælisleitendum sem átti að senda með fluginu voru felldir niður.
Truss hafnaði ásökunum bresku kirkjunnar um að stefna stjórnvalda um að senda hælisleitendur til Austur-Afríku „væri hneisa fyrir Bretland“.
Sjö einstaklingar munu því að öllum líkindum fara með fluginu í kvöld sem kostar stjórnvöld allt að 500 þúsund pund, eða um 81 milljón króna.
Truss sagði að hinir 23 hælisleitendurnir yrðu sendir til Rúanda með næstu flugvél.
„Það er mjög mikilvægt að við setjum þetta sem meginregluna til þess að stöðva þessi skelfilegu viðskipti sem mansal er, þar sem verslað er með eymd,“ sagði Truss í viðtalinu.
Hún sagði ákvörðunina vera „algjörlega löglega“ og „algjörlega siðferðilega“ og hvatti þá sem eru andstæðir ákvörðuninni að koma með betri lausn.
Hælisleitendurnir sem sendir verða til Rúanda fara fyrst á hostelið Hope sem var byggt árið 2014 fyrir munaðarleysingja þjóðarmorðsins í ríkinu árið 1994. Hostelið getur tekið á móti um 100 hælisleitendunum.
Um 20 munaðarleysingjar bjuggu á hostelinu áður en samningurinn var undirritaður á milli Bretlands og Rúanda. Þeim hefur nú verið vísað á dyr.