Stjórnvöld í Danmörku og Kanada hafa náð samkomulagi um Hans-eyju en deilur um eignarhald eyjunnar hafa staðið yfir síðan árið 1973.
Fánastrið hefur ríkt um eyðieyjuna, sem kallast Tartupaluk á grænlensku, en hún er um 1,3 ferkílómetrar á stærð og er umlukin ís mestallt árið.
Á vef danska ríkisútvarpsins DR er greint frá því að samkomulagið felist í því að helmingur eyjunnar verði kanadískur og hinn helmingurinn grænlenskur, eða danskur. Landamærin verða meðfram jökulsprungu.
Því er um að ræða fyrstu landamæri Grænlands.
Þá hefur einnig verið samið um landhelgi Grænlands, sem verður 3.882 kílómetra löng og því stærsta landhelgi heims að sögn Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur.
Kofod sagði að um einstaklega fallegan samning væri að ræða sem geti skapað samvinnu á milli ríkjanna.