Rússneskir dómstólar hafa fallist á framlengingu gæsluvarðhalds yfir bandarísku körfuboltakonunni Brittney Griner, sem var handtekin á flugvellinum í Moskvu fyrir að hafa í vörslum sínum rafsígarettu með kannabis olíu.
Gæsluvarðhaldið var framlengt til 2. júlí og verður þá endurskoðað að nýju.
Griner er 31 árs gömul og 2,06 metrar á hæð. Þykir hún meðal bestu körfuboltakvenna heims.
Griner á að baki tvö gullverðlaun á Ólympíuleikunum með kvennalandsliði Bandaríkjanna í körfubolta. Hún spilar í WNBA deildinni, en hafði verið að spila fyrir lið í efstu deild á Rússlandi síðastliðið hálfa árið. Það er algengt að leikmenn WNBA leiti á önnur mið og tryggi sér þannig tekjur þegar hlé er á deildinni.
Griner var á leið til baka til Bandaríkjanna en var handtekin á flugvellinum í febrúar og hefur verið í gæsluvarðhaldi í Rússlandi síðan.
Handtakan átti sér þannig stað örfáum dögum áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Bandarísk yfirvöld segja Rússa hafa handtekið Griner að ósekju.
WNBA deildin kveðst vera að beita sér fyrir því að fá Griner lausa úr haldi.