Navalní horfinn úr fangelsinu

Alexei Navalní var dæmdur í níu ára fangelsi í febrúar. …
Alexei Navalní var dæmdur í níu ára fangelsi í febrúar. Hér sést hann í fjarbúnaði í dómsal. AFP

Rúss­neski stjórn­ar­and­stæðingurinn, Al­ex­ei Navalní, er horfinn úr fangelsinu sem hann var í að sögn samstarfsmanna hans.

Líklegast er verið að færa hann í annað fangelsi að sögn nánustu aðstandenda hans, en The Guardian greinir frá því að það geti tekið daga eða vikur og mikilli leynd er haldið yfir um flutning fanga í Rússlandi.

Navalní hefur verið einn helsti gagn­rýn­andi Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta. Hann var fang­elsaður í fe­brú­ar­mánuði á síðasta ári fyrir gaml­ar kær­ur vegna fjár­svika. Í mars var Navalní dæmdur í níu ára fangelsi.

„Allan þennan tíma sem við vitum ekki hvar Alexei er, er hann einn í kerfi sem hefur nú þegar reynt að drepa hann einu sinni,“ sagði Kira Yarmysh, talskona Navalní, á samfélagsmiðlum.

Þurft að standa í viðbragðsstöðu tímunum saman

Leonid Volkov, náinn bandamaður Navalní, sagði á Telegram að lögfræðingur Navalní hafi ætlað að heimsækja hann í fangelsið í dag. Er hann kom í fangelsið var honum hins vegar tjáð að enginn fangi væri þar undir því nafni. 

„Hvar Alexei er nú og í hvaða fangelsi hann er færður í vitum við ekki,“ sagði Volkov.

Hingað til hefur Navalní verið í IK-2 fangelsinu á Vladimir-svæðinu sem er um 100 kílómetrum austur af Moskvu, höfuðborgar Rússlands.

Fangelsið er þekkt fyrir sérstaklega strangar reglur, meðal annars þurfa fangar að standa í viðbragðsstöðu tímunum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert