Segja borgina ekki einangraða

Severodonetsk hefur sætt miklum árásum undanfarnar vikur.
Severodonetsk hefur sætt miklum árásum undanfarnar vikur. AFP/Aris Messinis

Úkraínsk yfirvöld vísa á bug ummælum um að borgin Severódónetsk í Lúhansk-héraðinu sé einangruð, þrátt fyrir að búið sé að eyðileggja allar brýr sem liggja í átt að henni, þar á meðal brúna sem tengir hana við nágrannaborgina Lísítsjansk.

Enn séu einhverjar samskiptaleiðir í boði sem hægt sé að nota þó þær séu flóknar. Úkraínskir hermenn haldi áfram að verja borgina þó að ástandið sé slæmt.

Talið er að um 540 til 560 óbreyttir borgarar leiti nú skjóls í neðanjarðarbyrgi undir Asot-efnaverksmiðjunni í iðnaðarhverfi borgarinnar. Eldur kom upp í verksmiðjunni á sunnudag eftir skotárás Rússa. Óleksandr Strjúk, yfirmaður borgarstjórnar, segir að erfitt sé að veita fólkinu þar stuðning en að einhverjar birgðir séu þar til staðar.

Ekki fallið í hendur Rússa

Bardagar hafa geisað í margar vikur í Severódónetsk, en borgin er sú stærsta í Lúhansk-héraðinu í austurhluta Úkraínu, sem hefur ekki fallið í hendur Rússa en þeir eru þó sagðir fara með stjórn yfir stærstum hluta hennar.

Úkraínumenn halda fast í iðnaðarsvæði borgarinnar en hart hefur verið sótt að því undanfarna daga.

Í gær kom tilkynning frá úkraínska hernum um að búið væri að hrekja hersveitir hans burt frá miðbæjarsvæðinu í borginni.

Hersveitir aðskilnaðarsinna, sem eru hliðhollir Rússum, segja nú borgina lokaða eftir að síðasta brúin sem tengdi borgina við Lísítsjansk var sprengd á sunnudaginn, og hafa hvatt úkraínska hermenn til að gefast upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka