Disney kynnir 14,5 milljóna ferð með Icelandair

Komið verður við í öllum Disney görðum heimsins, en gestir …
Komið verður við í öllum Disney görðum heimsins, en gestir mega ekki vera yngri en tólf ára. AFP

Disney kynnir nýja „lúxusferð“ í kringum heiminn með viðkomu í öllum Disney görðum heimsins auk annarra áfangastaða.

Ferðin kostar 110 þúsund Bandaríkjadala á mann, eða um 14,5 milljónir íslenskra króna, og ferðast verður með sérstakri Boeing 757-vél á vegum íslenska flugfélagsins Icelandair. 

Icelandair flugvélin verður útfærð sérstaklega fyrir þessa ferð og í henni verður aðeins pláss fyrir 75 farþega. Langdrægni Boeing 757-vélarinnar þótti kjörin fyrir þetta ferðalag, en leitast verður við að láta gestum líða eins og þeir séu um borð í einkaþotu en ekki farþegavél. 

Disney heimsreisa

Um er að ræða Disney heimsreisu sem ber heitið „Disney garðar um allan heim, ævintýri í einkaþotu.“ Um borð verða sérfræðingar frá Disney sem veita fræðslu og leiðsögn er varðar áfangastaðina. 

Lagt verður af stað í júlí á næsta ári, 2023. Gist verður á hótelum Disney í Kaliforníu, Tókýó, Sjanghaí, Hong Kong, París og í Flórída. Ferðin tekur alls 24 daga og verður einnig stoppað á stöðum þar sem enga Disney garða er að finna. 

Farið verður í ferð um Taj Mahal í Indlandi og Pýramídarnir í Egyptalandi verða skoðaðir. 

Disney kynnir ferðina sem „bucket lista ævintýra.“ Þá verður gestum einnig boðið að heimsækja svokallað ráðstefnubýli Skywalker, sem er staðsett rétt fyrir utan San Francisco. 

Gestir verða að vera eldri en tólf ára, en börn borga sama verð og fullorðnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert