Hétu aðstoð sinni við að sigra Rússa

Klaus Iohannis, Volodimír Selenskí, Olaf Scholz, Emmanuel Macron og Mario …
Klaus Iohannis, Volodimír Selenskí, Olaf Scholz, Emmanuel Macron og Mario Draghi á göngu til blaðamannafundar í dag. AFP/Sergei SUPINSKY

Leiðtogar Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Rúmeníu heimsóttu Úkraínu í dag og funduðu með Volodimír Selenskí, forseta landsins. Þeir hétu Úkraínumönnum aðstoð sína við að sigra Rússa og að endurreisa eyðilagðar borgir í landinu.

Þetta er í fyrsta skipti síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst sem leiðtogarnir fjórir heimsækja landið.

„Frakkland hefur staðið við hlið Úkraínu frá fyrsta degi. Við stöndum með Úkraínumönnum án nokkurs vafa. Úkraína verður að standa sterk og sigra,“ sagði Emmanuel Macron, forseti Frakklands, við fjölmiðla.

„Þeir eyðilögðu leikskóla, þeir eyðilögðu leikvelli. Allt verður endurbyggt,“ sagði Mario Draghi, forsætisráherra Ítalíu.

Leiðtogarnir fimm á blaðamannafundi í dag.
Leiðtogarnir fimm á blaðamannafundi í dag. AFP/Sergei SUPINSKY

Úkraína eigi heima í Evrópusambandinu

Þeir Macron og Draghi voru sammála Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, og Klaus Iohannis, forseta Rúmeníu, um að Úkraína fengi án tafar stöðu umsækjanda í Evrópusambandið.

Scholz sagði á fundinum að Úkraína ætti heima í Evrópufjölskyldunni. „Við styðjum Úkraínu með að senda þeim vopn. Við munum halda því áfram eins lengi og þurfa þykir,“ sagði kanslarinn.

Selenskí lofaði því að Úkraína væri tilbúin að vinna þá vinnu sem þarf til að verða fullgildur meðlimur Evrópusambandsins. Hann sagði einnig að Úkraínumenn hefðu nú þegar sannað að þeir séu verðugir til þess að fá aðild.

Öll 27 lönd Evrópusambandsins þurfa að vera hlynnt aðild Úkraínu til þess að landið geti fengið inngöngu í sambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka