„Þetta er okkar vara, okkar reglur,“ segir framkvæmdastjóri rússneska orkurisans Gazprom, en fyrirtækið hefur dregið úr útflutningi á gasi til Þýskalands um næstum helming með engum fyrirvara. BBC greinir frá.
Þjóðverjar segja tilganginn vera að keyra upp verð á gasi en framkvæmdastjóri Gazprom vill meina að draga hafi þurft úr útflutningi vegna viðgerða á þjöppunarbúnaði hjá þýska fyrirtækinu Siemens.
Ítalir og Austurríkismenn hafa einnig greint frá því að Rússar hafi dregið úr útflutningi á gasi til þeirra, en Rússar segja það ekki hafa verið gert að yfirlögðu ráði.
Alexei Miller, framkvæmdastjóri Gazprom, segir Rússa ætla að spila eftir sínum eigin reglum eftir að hafa dregið úr flutningi í gegnum Nord Stream-gasleiðsluna um helming.
„Við spilum ekki eftir reglum sem við semjum ekki,“ sagði Miller á alþjóðlegri efnahagsráðstefnu í Pétursborg. Það væri engin önnur leið fær en að draga úr útflutningi á meðan vandræði með búnaðinn væru til staðar.
Ástæðan fyrir töfum á afhendingu búnaðarins væri refsiaðgerðir Vesturlanda í garð Rússa. Þjóðverjar segja það hins vegar ekki standast.
Lönd innan Evrópusambandsins hafa mörg hver dregið saman eða hætt innflutningi á jarðgasi frá Rússlandi eftir innrásina í Úkraínu en Þýskaland er enn háð jarðgasi frá Rússum.