„Þetta er okkar vara, okkar reglur“

Miller segir Rússa ekki ætla að spila eftir reglum sem …
Miller segir Rússa ekki ætla að spila eftir reglum sem þeir sömdu ekki. AFP/Olga MALTSEVA

„Þetta er okkar vara, okkar reglur,“ segir framkvæmdastjóri rússneska orkurisans Gazprom, en fyrirtækið hefur dregið úr útflutningi á gasi til Þýskalands um næstum helming með engum fyrirvara. BBC greinir frá.

Þjóðverjar segja tilganginn vera að keyra upp verð á gasi en framkvæmdastjóri Gazprom vill meina að draga hafi þurft úr útflutningi vegna viðgerða á þjöppunarbúnaði hjá þýska fyrirtækinu Siemens.

Ítalir og Austurríkismenn hafa einnig greint frá því að Rússar hafi dregið úr útflutningi á gasi til þeirra, en Rússar segja það ekki hafa verið gert að yfirlögðu ráði.

AFP/John MACDOUGAL

Þjóðverjar háðir jarðgasi frá Rússum

Alexei Miller, framkvæmdastjóri Gazprom, segir Rússa ætla að spila eftir sínum eigin reglum eftir að hafa dregið úr flutningi í gegnum Nord Stream-gasleiðsluna um helming.

„Við spilum ekki eftir reglum sem við semjum ekki,“ sagði Miller á alþjóðlegri efnahagsráðstefnu í Pétursborg. Það væri engin önnur leið fær en að draga úr útflutningi á meðan vandræði með búnaðinn væru til staðar.

Ástæðan fyrir töfum á afhendingu búnaðarins væri refsiaðgerðir Vesturlanda í garð Rússa. Þjóðverjar segja það hins vegar ekki standast.

Lönd inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa mörg hver dregið sam­an eða hætt inn­flutn­ingi á jarðgasi frá Rússlandi eft­ir inn­rás­ina í Úkraínu en Þýska­land er enn háð jarðgasi frá Rúss­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert