Krefjast þess að fá að halda Eurovision

Úkraína bar sigur úr býtum í Eurovision í ár og …
Úkraína bar sigur úr býtum í Eurovision í ár og ætti því, hefðinni samkvæmt, að halda næsta Eurovision. AFP

Menningarráðherra Úkraínu fordæmir ákvörðun Sambands evrópska sjónvarpsstöðva (EBU) er lýtur að því að keppnin verði ekki haldin í Úkraínu á næsta ári, þrátt fyrir sigur landsins í keppninni í ár. 

„Við munum krefjast þess að sambandið hverfi frá þessari ákvörðun, því við trúum því að við munum uppfylla öll þau skilyrði sem krafist er. Við krefjumst viðbótarviðræðna varðandi það að halda Eurovision 2023 í Úkraínu,“ segir í tilkynningu frá ráðherranum. 

Uppfylli ekki skilyrðin

Sambandið hafði tekið þessa ákvörðun í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu. Yfirlýsing þess efnis var birt í dag. Þar kom fram að stjórnin væri hrygg og vonsvikin yfir því að þurfa að taka þessa ákvörðun, en hafi ekki átt annarra kosta völ en að útiloka Úkraínu sem næsta gestgjafaland keppninnar. 

Til þess að fá að halda Eurovision þurfi viðkomandi land að uppfylla ákveðin skilyrði, sem Úkraína geri ekki lengur í ljósi stríðsástandsins sem þar ríkir. 

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hafði lýst því yfir að keppnin yrði haldin í Úkraínu á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka