Endurupptaka í hrottalegu manndrápsmáli

Þroskaþjálfinn þrítugi hlaut skelfileg örlög árið 2014
Þroskaþjálfinn þrítugi hlaut skelfileg örlög árið 2014

Endurupptökunefnd sakamála í Noregi hefur úrskurðað að mál sem norsk þjóð var slegin óhug yfir árið 2014 skuli tekið upp og nýr dómur kveðinn upp í stað eldri dóms frá október 2016, vegna gagna sem nýlega komu fram.

Mál þetta, Vollen-drápið svokallaða, snýst um voveifleg örlög Önnu Kristin Gillebo Backlund, þrítugs þroskaþjálfa á næturvakt á barnaverndarheimilinu Små Enheter í Vollen í Asker, steinsnar frá Ósló, 28. október 2014. Fimmtán ára gömul stúlka sem vistuð var á heimilinu veittist að Backlund þá um nóttina, kyrkti hana þar til hún missti meðvitund og stakk hana því næst 21 sinni með hníf, árás sem hafði banvænar afleiðingar í för með sér.

Hlaut stúlkan níu ára varðveisludóm (n. forvaring), réttarúrræði sem aðeins háskalegustu afbrotamenn Noregs, þar á meðal fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik, sæta og gerir það að verkum að hægt er að framlengja afplánun án nýrra réttarhalda, jafnvel til æviloka dómfellda. Varð stúlkan fyrst Norðmanna undir 18 ára aldri til að hljóta slíkan dóm.

Verður mjög krefjandi

Í fréttatilkynningu endurupptökunefndar segir að nýtt mat geðlæknis á stúlkunni sé nú komið fram sem gefi til kynna að hún hefði hugsanlega ekki getað talist sakhæf á verknaðarstundu og því mögulega hlotið sýknudóm. Greinir norska dagblaðið Aftenposten frá því að nú þyki sýnt að dæmda hafi verið haldin ofsóknargeðklofa (n. paranoid schizofren) frá 11 ára aldri og því líklegt að hún hefði talist ósakhæf hefði sú vitneskja legið fyrir við fyrri réttarhöld.

„Þetta verður mjög krefjandi en við verðum bara að bíta á jaxlinn,“ segir Amund Gillebo, bróðir hinnar myrtu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Endurupptökubeiðnin kom okkur í opna skjöldu, við höfðum ekki hugmynd um að endurmat hefði farið fram,“ heldur hann áfram en það voru ríkissaksóknari Noregs og stúlkan dæmda sem lögðu beiðnina fram hjá endurupptökunefndinni.

Fjölskylda Backlund heitinnar hefur farið um dimman dal frá því nóttina örlagaríku í október 2014. Eitt var ástvinamissirinn en auk þess varð fjölskyldunni það þungt áfall þegar Små Enheter var dæmt til greiðslu 200.000 króna sektar, jafnvirði 2,6 milljóna íslenskra króna á gengi dagsins, og þótti vesældarlegur verðmiði á mannslíf, einkum eftir að rannsókn hafði leitt í ljós klárt brot heimilisins á vinnulöggjöf og að öryggi starfsfólks vegna hugsanlegra árása vistmanna væri verulega ábótavant.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert