Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari búsettur í Kænugarði, heimsótti í fyrradag Súmí héraðið í Úkraínu og fylgdist með þegar leitað var að sprengjum á svæðinu og þær aftengdar.
Hann segir fjölda fólks hafi tekið þátt í leitinni og hundar verið með í för. Notast var meðal annars við málmleitartæki.
Þá fylgdist Óskar með þegar leitarfólkið bar hverja skriðdrekajarðsprengjuna á fætur annarri út úr húsi á svæðinu og lagði þær niður í 10 metra fjarlægð frá um það bil 100 blaðamönnum sem hafði verið boðið að fylgjast með aðgerðunum.
Kafarar köfuðu einnig eftir ósprungnum sprengjum á botni vatns í héraðinu en almennt þarf að gæta þess að setja ekki slíkar sprengjur af stað.
Að sögn Óskars var hluti af rússneskum skriðdreka einnig sprengdur upp á veginum og rann út í vatnið. Við sprenginguna lentu skothylki í vatninu og voru kafararnir því einnig að leita að þeim.