Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, er látinn 80 ára að aldri. Eftir langa baráttu við krabbamein hrakaði heilsu hans skyndilega og var hann lagður inn á spítala á mánudag, þar sem hann lést.
Danskir fjölmiðlar greina frá andlátinu.
Uffe er helst þekktur fyrir það að hafa verið utanríkisráðherra Schlüter-stjórnarinnar í Danmörku á 9. áratugnum.
Börn hans, þau Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre í Danmörku, og Karen Ellemann, þingmaður sama flokks, voru stödd á lýðræðishátíð Danmerkur í Bornholm en yfirgáfu hana á fimmtudag til að vera hjá föður sínum.
Haft var eftir Uffe í viðtali í mars á þessu ári að hann vissi að dagar hans væru senn taldir og tíminn að hlaupa frá honum.