Belgar skiluðu tönn Lumumba

Roland Lumumba, sonur Patrice Lumumba, ræddi við fjölmiðla áður en …
Roland Lumumba, sonur Patrice Lumumba, ræddi við fjölmiðla áður en athöfnin hófst í dag. AFP

Belgar skiluðu í dag síðustu líkamsleifum Patrice Lumumbas, fyrrverandi leiðtoga Kongó, til fjölskyldu Lumumbas. Um er að ræða tönn Lumumbas og segir fréttastofa AFP að um kaflaskil sé að ræða í vægðarlausri nýlendufortíð Belgíu. 

Frederic Can Leeuw aðalsaksóknari afhenti fjölskyldu Lumumbas lítinn bláan kassa sem tönnin var ofan í, við hátíðlega athöfn. Sagði hann að þær aðgerðir sem ættingjarnir hefðu gripið til í viðleitni til að leita réttar síns í málinu hafi skilað „réttlæti“.

Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, heilsar kollega sínum frá Kongó, …
Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, heilsar kollega sínum frá Kongó, Jean-Michel Sama Lukonde fyrir athöfnina. AFP

Belgísk yfirvöld beri ábyrgð

Lumumba var myrtur af aðskilnaðarsinnum og belgískum málaliðum árið 1961. Í Kongó hefur hann verið álitinn hetja fyrir að setja sig upp á móti nýlendustefnu Belga. 

Roland, sonur Lumumbas, sagði á blaðamannafundi fyrir helgi að afhending tannarinnar myndi gefa fjölskyldu hans færi á að ljúka sorgarferli sínu.

Alexander De Croo sagði við athöfnina í dag að yfirvöld í landi hans beri „siðferðilega ábyrgð“ á morðinu. Þá baðst hann afsökunar á því. 

„Maður var myrtur fyrir pólitíska sannfæringu sína, orð sín og gildi,“ sagði De Croo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka