Dóttir Duterte sór embættiseið

Sara Duterte við athöfnina í gær.
Sara Duterte við athöfnina í gær. AFP

Sara Duterte, elsta dóttir Rodrigo Duterte – fráfarandi forseta Filippseyja – sór í gær sinn embættiseið en hún tekur brátt við embætti varaforseta landsins. Mun hún stýra landinu við hlið Ferdinands Macros yngri sem var lýstur réttkjörinn forseti landsins í maímánuði. 

Hann er sonur annars fyrrverandi leiðtoga Filippseyja og deila þeir feðgarnir nafninu Ferdinand Macros.

Marcos eldri hélt um valdataum­ana í rúm tutt­ugu ár, eða frá 1965 til árs­ins 1986, þegar hon­um var steypt af stóli í bylt­ingu.

Mikið púður var lagt í að hvítþvo sögu fjöl­skyld­unn­ar í kosn­inga­bar­átt­unni nú í ár. Banda­lög við önn­ur sterk póli­tísk ætt­ar­veldi auðvelduðu Marcos yngri einnig að ná til kjós­enda á svæðum þeirra velda.

Hafði áður tekið við af pabba sínum

Sara Duterte tók við embættinu í borginni Davao í gær. Við hátíðlega athöfn af því tilefni hét hún því að sameina filippseysku þjóðina, að því er BBC greinir frá. 

Fyrir rúmum áratug tók Sara Duterte við embætti borgarstjóra Davao en áður hafði faðir hennar gengt því embætti. Faðirinn, Rodrigo Duterte, komst til valda árið 2016 og lofaði þá að draga úr glæpum á Filippseyjum og laga eiturlyfjavandann. Gagnrýnendur hans segja að Duterte hafi síðan þá hvatt lögregluna til að framkvæma þúsundir morða án dóms og laga í því sem Duterte kallar „stríð gegn fíkniefnum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert