Gustavo Petro, fyrrverandi uppreisnarmaður, var kjörinn forseti Kólumbíu í gær. Varð Petro þannig fyrsti vinstri sinnaði maðurinn sem náð hefur kjöri forseta í Kólumbíu.
Önnur söguleg úrslit kosninganna eru þau að Francia Marquez mun taka við embætti varaforseta landsins, fyrst svartra kvenna.
Petro sigraði milljónamæringinn og viðskiptajöfurinn Rodolfo Hernandez í spennuþrungnum og ófyrirsjáanlegum kosningum.
Petro vann með 50,4% atkvæða en Hernandez hlaut 47,3%.
„Frá og með deginum í dag er Kólumbía að breytast. Um er að ræða alvöru breytingar sem leiða okkur að markmiði okkar: pólitík kærleikans... skilnings og samræðna,“ sagði Petro.
Hernandez viðurkenndi niðurstöðuna í kjölfar þess að hún var kunngjörð í gær.
„Ég vona að Gustavo Petro viti hvernig eigi að stjórna landinu og verði trúr því sem hann hefur sagt um andstöðu sína við spillingu,“ sagði Hernandez.
Petro mun taka við af hinum íhalddsama Ivan Duque sem var afar óvinsæll meðal þjóðar sinnar. Honum var meinað að gefa kost á sér til endurkjörs.