Úkraínskur bráðatæknir sem kvikmyndaði þá sem höfðu fallið í bardögum um hafnarborgina Maríupol hefur verið látinn laus eftir þrjá mánuði í haldi Rússa.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, gaf ekki upp frekari upplýsingar þegar hann tilkynnti að Yuliia Payevska, kölluð Tayra, hafi verið látin laus og að hún væri komin heim til sín.
Rússneskir fjölmiðlar reyndu að mála hana sem öfgafullan þjóðernissinna, sem er lýsing sem fjölskylda hennar og vinir vísuðu alfarið á bug, að því er BBC greindi frá.
Myndefni sem Payevsku tókst að smygla frá Maríupol sýndi þegar hún og aðrir bráðatæknar komu úkraínskum og rússneskum hermönnum sem höfðu særst í bardögum til aðstoðar, að sögn AP-fréttastofunnar sem fékk myndefnið í hendurnar.
80 daga umsátrinu, þar sem þúsundir almennra borgara og hermanna féllu og stór hluti borgarinnar eyðilagðist, lauk með uppgjöf úkraínskra hermanna um miðjan maí.
Payevska var handtekin ásamt samstarfsmanni sínum 16. mars, sama daga og sprengju var varpað á leikhús í Maríupol, þangað sem fólk hafði leitað skjóls við loftárásum Rússa. Árásin er sögð hafa orðið mörg hundruð manns að bana.
Payevska hafði skömmu áður látið AP-fréttastofuna hafa 256 gígabæt af myndefni sem hún tók upp með búkmyndavél. Blaðamanni tókst að koma gögnunum út úr borginni með því að fela þau inni í tíðatappa.
Ríkisstjórn Úkraínu hafði krafist lausnar Payevsku úr haldi og sagði Rússa ekki geta haldið henni sem stríðsfanga þar sem hún væri ekki hermaður.
Rússneskir fjölmiðlar sökuðu hana um að vera hluti af úkraínsku herdeildinni Azov sem á rætur sínar í hægri öfgahyggju. AP-fréttastofan fann engar sannanir fyrir þessari fullyrðingu.
Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar sögðust þeir ætla að „af-nasistavæða“ landið og gera her þess óvirkan. Að sögn Sameinuðu þjóðanna hafa yfir 4.500 almennir borgarar verið drepnir og næstum 5.600 særst. Þúsundir hermanna hafa einnig fallið eða særst, bæði úkraínskir og rússneskir. Yfir 13 milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín, að sögn Sameinuðu þjóðanna.