Olíuinnflutningur Kínverja frá Rússlandi jókst um 55 prósent í maí, samkvæmt tölum frá kínverska tollinum. Á sama tíma hafa Vesturlönd sett viðskiptabann á olíu frá Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.
Næststærsta efnahagsríki heimsins flutti inn um 8,42 milljónir tonna af olíu frá Rússlandi í síðasta mánuði og fór talan fram úr þeirri sem það hefur flutt inn frá Sádi-Arabíu, en Kínverjar hafa neitað að fordæma stríðsrekstur Rússa í Úkraínu.
Í síðustu viku fullvissaði Xi Jinping, forseti Kína, Vladimír Pútín Rússlandsforseta um stuðning Kínverja varðandi „fullveldi og öryggi“ Rússlands.